5 | Flokkur Pútíns í vandræðum, John Bercow kveður, og Facebook-dating

Published: Sept. 13, 2019, 2:03 p.m.

Í fimmta þætti Heimskviðna er fjallað um borgarstjórnarkosningar í Rússlandi, sem alla jafna rata ekki í heimsfréttirnar. Á því varð þó breyting í vikunni. Grasrótarhreyfingum hefur vaxið fiskur um hrygg og þrátt fyrir að margir fulltrúar hafi ekki fengið að bjóða fram í borgarstjórnarkosningum í Moskvu um síðustu helgi þá tókst stjórnarandstæðingum ætlunarverk sitt; að fækka fulltrúum flokksins Sameinaðs Rússlands, flokks Pútíns forseta. Samfélagsmiðlar reyndust stjórnarandstæðingum vel í kosningabaráttunni. Dagný Hulda Erlendsdóttir fjallar um pólitíska landslagið í Rússlandi í aðdraganda og kjölfar kosninganna, og ræðir við Jón Ólafsson prófessor, sem hefur búið í Rússlandi og fylgist vel með þróun mála þar í landi. Við segjum ykkur frá hinum litríka John Bercow, sem tilkynnti í vikunni að hann ætli að hætta sem forseti neðri málstofu breska þingsins. Hann hefur sett mark sitt á embættið. Ekki bara með líflegri framkomu í þingsalnum, heldur einnig með því að auka vægi þingsins, líkt og Bogi Ágústsson segir okkur frá. Nýtt stefnumótaforrit leit dagsins ljós í Bandaríkjunum í síðustu viku. Þetta er þó ekkert nýsköpunarföndur, heldur kemur það frá samfélagsmiðlarisanum Facebook. En spurt er, er hægt að treysta Facebook fyrir jafn viðkæmum upplýsingum um einkalíf fólks? Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.