21 | Megxit, ráðabrugg Pútíns og ný samsæriskenning um dauða Tupacs

Published: Jan. 24, 2020, 2:03 p.m.

Í tuttugasta og fyrsta þætti Heimskviðna er fjallað um málið sem skekur bresku pressuna um þessar mundir: Megxit. Hertogahjónin af Sussex, Harry Bretaprins og Meghan, vilja draga sig í hlé, draga úr embættisverkum á vegum bresku konungsfjölskyldunnar og standa á eigin fótum. Það gera þau meðal annars til að forða sér og sínum undan vökulum augum fjölmiðla. En er víst að ákvörðun þeirra verði til þess að draga úr áhuga fjölmiðla og almennings á þeim Harry og Meghan? Birta Björnsdóttir segir okkur frá Megxit. Ríkisstjórn Rússlands fór frá völdum í síðustu viku og nýr forsætisráðherra tók af Dimitry Medvedev. Það er þó engin stjórnarkreppa í landinu, og en þessi óvænta uppstokun ríkisstjórnarinnar tengist fyrirhuguðum, og viðamiklum breytingum á stjórnarskrá landsins. Fjögur ár eru þangað til Vladimír Pútín forseti þarf að láta að völdum, og talið er að nú ætli hann tryggja áframhaldandi völd sín, eftir að forsetatíð hans lýkur. Þrátt fyrir þetta þykja fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar einnig benda til þess að Rússland sé að styrkjast sem lýðræðisríki. Guðmundur Björn fjallar um málið og ræðir við Dagnýju Huldu Erlendsdóttur, fréttamann, um nýjasta útspil Pútíns. Þá fjallar Hallgrímur Indriðason um rapparann Tupac Shakur, sem var myrtur í september 1996. Eða hvað? Samsæriskenningar um að hann hafi sviðsett dauða sinn hafa verið lífseigar - og nú fyrir skömmu fengu þær enn meiri byr á óhefðbundinn hátt, svo ekki sé meira sagt. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.