2 | Arfleið Angelu Merkel, Grænland Trump og DNA rannsóknir

Published: Aug. 23, 2019, 2:03 p.m.

Í öðrum þætti Heimskviðna er fjallað um feril valdamestu konu heims, Angelu Merkel Þýskalandskanslara, en hún sótti Ísland heim í vikunni. Rætt er við Lisbeth Kirk, stofnanda EU Obsverer og Eirík Bergmann Einarsson um Merkel og helstu áskoranir hennar í embætti. Þá ræðir Björn Malmquist um komandi kosningar í tveimur fylkjum í austurhluta Þýskalands, þar sem búist er við því að þjóðernisflokkar fái góða kosningu. Donald Trump ætlar kaupa Grænland. Eða ætlaði, þar til hann komst að því að landið er ekki til sölu. Málefni Norðurslóða eru nú á hvers manns vörum. Bogi Ágústsson segir okkur frá landinu sem Bandaríkin ásælast, og ræðir meðal annars við Kim Kielsen, formann grænlensku landsstjórnarinnar. Kielsen, sem legið undir gagnrýni samflokksmanna sinna, virðist hafa styrkt stöðu sína í kjölfar ummæla Trumps. Í Bandaríkjunum eru lögregluyfirvöld farin að nýta sér framfarir í erfðavísindum til að leysa gömul sakamál. Þar er ýmsum meðulum beitt. Birta Björnsdóttir segir okkur meðal annars frá því hvernig notuð servíetta nýttist við að upplýsa morð, sem framið var fyrir hátt í þrjátíu árum síðan. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.