15 | Líbanon, Andrés Bretaprins og dauðadómur Rodney Reed

Published: Nov. 22, 2019, 2:03 p.m.

Í fimmtánda þætti Heimskviðna er fjallað um vaxandi óánægju íbúa í Líbanon með stjórnvöld í landinu. Síðustu daga hefur landinu verið lýst sem sökkvandi skipi og það komið ofan í djúpa holu sem erfitt verður að komast upp úr. Hundruð þúsunda hafa flykkst út á götur síðastliðnar fimm vikur til þess að mótmæla bágum efnahagi og vanhæfum gjörspilltum stjórnmálamönnum. En afhverju er þetta að gerast núna og hvers vegna gengur hægt að leysa málin? Ólöf Ragnarsdóttir ræðir við Héðinn Halldórsson, upplýsingafulltrúa hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Tyrklandi, en bjó um tíma í Líbanon. Þá ræðir Ólöf einnig við Lama Fakih, forstöðukonu Human Rights Watch í Beirút. Andrés Brétaprins, næstelsti sonur Elísabetar Englandsdrottningar, stendur í ströngu þessa daganna og hefur dregið sig í hlé frá opinberum skyldum sínum, vegna ásakanna um að hafa misnotað stúlku undir lögaldri skömmu eftir aldamót. Stúlkunni kynntist hann í gegnum bandaríska fjárfestinn og barnaníðinginn Jeffery Epstein. Viðtal sem Breska ríkisútvarpið BBC tók við Andrés í síðustu viku hefur farið eins og eldur í sinu um netheima, en þar þótti Andrés gera stöðu sína enn verri. Guðmundur Björn fjallar um Andrés Bretaprins. Þá segir Birta Björnsdóttir okkur frá því að dauðarefsingu yfir bandarískum manni var frestað í vikunni eftir að hávær mótmæli náðu eyrum ríkisstjóra Texas. Mótmælin snerust um að ný sönnunargögn bentu til að maðurinn væri alls ekki sekur um glæpinn sem átti að lífláta hann fyrir. Kim Kardashian og Bernie Sanders eru meðal þeirra sem fagna því að Rodney Reed sé enn á meðal vor og að mál hans verði rannsakað á nýjan leik. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.