12 | Brexit „bömmer“ í Bretlandi, dauði al-Baghdadi og framtíð ÍSIS

Published: Nov. 1, 2019, 2:03 p.m.

Í tólfta þætti Heimskviðna er fjallað um Brexit söguna endalausu, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Bretar eru nefnilega ekki enn farnir úr Evrópusambandinu, þó að enn einn fresturinn til þess hafi runnið út í gær. En þyki fólki það taka langan tíma fyrir Breta að komast úr Evrópusambandinu má hafa það í huga að það tók líka þó nokkur ár fyrir þá að komast í sambandið. Það togast nefnilega á í mörgum Bretum viljinn til að tilheyra og hagnast á veru innan Evrópusambandsins og minningin um heimsveldið sem þeir eitt sinn voru. Og nú eru Bretar margir hverjir dauðleiðir á allri umræðu um Brexit, umræðu sem er engu að síður hvergi nærri lokið. Birta Björnsdóttir ræðir við Eirík Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Þóru Helgadóttur Frost, hagfræðing og íbúa í Lundúnum. Þá fjallar Guðmundur Björn um fallinn leiðtoga Íslamska ríkisins, eða ÍSIS, Abu Bakr al-Baghdadi. Hann lést í síðustu viku þegar bandarískir sérsveitarmenn réðust inn á heimili hans í norðurhluta Sýrlands. Samtökin réðu á tíma yfir nær þriðjungi Íraks, en eru ekki svipur hjá sjón í dag miðað við það sem áður var. Langur vegur er þó frá því að samtökin leggi upp laupanna. Rætt er við Gunnar Hrafn Jónsson, sem starfaði um hríð sem fréttamaður á erlendu deild fréttastofu RÚV, um al-Baghdadi, hugmyndafræði samtakanna og rótina að baki þeirri hugmyndafræði sem mótar herskáa íslamista. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.