Víkingur Heiðar, Albert Uderzo og þjóðhættir og ómtími bóka

Published: March 26, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara um nýja plötu þar sem hann leikur tónlist eftir frönsku tónskáldin Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau, en platan sem kemur út hjá útgáfufyrirtækinu Deutsche Grammophon á morgun er sú þriðja sem Víkingur Heiðar gefur út hjá fyrirtækinu. Í Víðsjá hljómar brot úr ítarlegu viðtali sem Guðni Tómasson átti við Víking en það mun hljóma í heild sinni í páskadagskrá Rásar 1. Þátturinn minnist einnig franska skopmyndateiknarans Alberts Uderzo sem andaðist á þriðjdag, 92ja ára gamall. Þekktastur var Uderzo fyrir að teikna sögurnar um Ástrík, en fyrsta teiknimyndasagan sem fjallar um hann kom út árið 1959. Rætt verður við Einar Fal Ingólfsson ljósmyndara og blaðamann og Halldór Baldursson skopmyndateiknara. Hermann Stefánsson rithöfundur ávarpar hlustendur úr Hljóðstofu B3, og skoðar í dag ómtíma bóka með því að glugga í hið merkilega rit Íslenska þjóðhætti eftir Jónas frá Hrafnagili, nýútkomna bók með sögum um kindur og óútkomin rit af skyldum toga eftir afkastamikinn og merkan en nánast óútgefinn höfund, Helga Jónsson frá Þverá í Dalsmynni. Og hlustendur heyra ljóð fyrir þjóð. Edda Björgvinsdóttir flytur á stóra sviði Þjóðleikhússins ljóðið Eilífð daganna eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson