Vesturheimsleikhús, Högni og Schubert og S-Ameríka

Published: March 5, 2020, 4:05 p.m.

Magnús Þór Þorbergsson leiklistarfræðingur verður gestur þáttarins og segir hlustendum frá leikhúslífi Vestur-Íslendinga á fyrstu áratugunum eftir að stórir hópar landsmanna fluttu vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna í leit að betra lífi. Magnús Þór stundar rannsóknir á þessu efni nú um stundir og hefur leitað heimilda í Íslendingabyggðum vestra sem leiða í ljós öflugt leiklistarlíf á mörgum svæðum þar sem Íslendinga var að finna. Einnig verður rætt við Högna Egilsson og Áslák Ingvarsson sem koma fram á Hótel Holti annað kvöld. Þar ætla þeir að flytja lög með hljómsveitinni Hipsumhaps og eftir Franz Schubert, auk verka eftir Högna. María Kristjánsdóttir leikhúsrýnir fjallar í dag um leikritið Gosa sem sýnt er á Litla sviði Borgarleikhússins í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Og Hólmfríður Garðarsdóttir prófessor í spænsku við Háskóla Íslands heldur áfram að horfa til vesturs. Hún hefur í pistlum sínum í Víðsjá að undanförnu beint sjónum að sögu, samtíma og stjórnmálum Rómönsku-Ameríku. Yfirskrift pistils hennar í dag er: "Það bjargaði einhver sögunni...", sem er tilvitnun í ljóð eftir argentínska skáldið Jorge Luis Borges, í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur. Þetta er fjórði og síðasti pistill Hólmfríðar og í dag fjallar hún um menningu og listir í Rómönsku-Ameríku. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson