Synd í Passíusálmum, Rófurass, Sakbitin sæla, Egla

Published: Feb. 4, 2021, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Hjalta Hugason, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, um birtingarmyndir syndarinnar í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar en Hjalti ritar grein um efnið í nýjasta hefti Ritsins, tímariti Hugvísindastofnunar. Lestur Passíusálmanna hófst á Rás 1 í gær. Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður og rithöfundur segir frá sýningunni Rófurassi sem opnuð verður í Listasafni Árnesinga í Hveragerði um helgina, en þar koma hundar mjög við sögu. Gréta Sigríður Einarsdóttir flytur pistil í Víðsjá í dag, og fjallar að þessu sinni um sakbitna sælu. Og hugað verður að Egils sögu sem er kvöldsagan á Rás 1 þessar vikurnar. Rætt verður við Torfa Tulinius um Snorra Sturluson og Egils sögu, meðal annars um rökin fyrir því að Snorri sé höfundur sögunnar.