Splúnkunýr djass, spænskar miðaldir, þorp andagiftar, Massive

Published: Feb. 17, 2021, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Jón Björnsson, sálfræðing og rithöfund, um sögu Spánar á miðöldum, en þá réðu þar ríkjum tveir þjóðflokkar, annars vegar Gotar og hins vegar Márar, sem byggðu upp glæsilegt og fágað mennningarríki á Spáni, þar sem listir og vísindi voru í miklum blóma. Jón ætlar að fjalla um þessa sögu hjá Endurmenntun á næstunni og segir frá í Víðsjá í dag. Hlustendur heyra einnig af nýrri plötu djasstríósins ?Hist og? þegar trompetleikarinn Eiríkur Orri Ólafsson verður tekinn tali en sveitin fagnar útkomu nýrrar plötu með tónleikahaldi um helgina. Tríóið skipa ásamt Eiríki Orra þeir Róbert Reynisson á gítar og Magnús Tryggvason Elíassen á trommur. Halla Harðardóttir heldur áfram að stikla á sögu borga á tímum farsótta. Í þetta sinn færir sagan okkur að þorpi andagiftar á hjara veraldar, þangað sem borgarbúar Katalóníu sóttu í heilsusamlega sumarmánuði og listamenn komu víða að í leit að örvandi félagsskap. Þorpið sem situr við hafið í skjóli illfærra fjalla kallast Cadaques og varð aðsetur súrrealista á þriðja áratug síðustu aldar. Og við sögu í Víðsjá í dag kemur einnig nákvæmlega 30 ára gamalt popplag sem mögulega gæti talist eitt af einkennislögum tíunda áratugarins.