Sjálf í sviðsljósi, fegurð, Victor Hugo, opinn aðgangur

Published: Jan. 5, 2021, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Ingibjörgu Sigurðardóttur um bók hennar Sjálf í sviðsljósi sem fjallar um lífshlaup ömmu hennar og nöfnu, Ingibjargar Steinsdóttur leikkonu. Einnig verður spurt í þætti dagsins: Afhverju föllum við í stafi frammi fyrir ægifegurð náttúrunnar? Afhverju fyllumst við löngun til að deila myndum af glitskýjum? Í nýjasta riti Háskólaútgáfunnar, Vá, Ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar, leitast fagurfræðingurinn Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, við að svara þessum spurningum. Hvað er fegurð og hvað er landslag og hversvegna skiptir það máli að tala um reynslu okkar af jöklum, fossum og fegurð. Afhverju er mikilvægt að taka fegurð og tilfinningar til greina við ákvarðanatöku um landslag? Halla Harðardóttir ræðir við Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur í Víðsjá í dag. Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi Víðsjár rýnir í dag í skáldsöguna Victor Hugo var að deyja eftir franska rithöfundinn og blaðamanninn Judith Perrignon en bókin kom nýlega út hjá bókaforlaginu Uglu í íslenskri þýðingu Rutar Ingólfsdóttur. Þetta er heimildaskáldsaga sem fjallar eins og titillinn gefur til kynna um andlát franska rithöfundarins Victors Hugo sem andaðist í París í maímánuði árið 1885. Áður hafa komið út á íslensku eftir Judith Perrignon verkin Augu Lýru, sem hún skrifaði í samvinnu við Evu Joly, og kom út í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar árið 2012, og árið 2018 kom út í íslenskri þýðingu Rutar Ingólfsdóttur skáldsagan Þetta var bróðir minn sem fjallar um bræðurna Théo og Vincent van Gogh. Einnig verður í Víðsjá í dag hugað að listaverkum sem eru að færast í opin aðgang nú um áramót í lagaumhverfi Bandaríkjanna. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson.