Salinas, Mæður, Gunnar Pétursson, Jakobína

Published: Feb. 18, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag er meðal annars sagt frá nýrri bók sem kemur út á Spáni í dag og nefnist Þegar útgáfan var veisla. Hún hefur að geyma persónuleg bréf eftir spænska útgefandann Jaime Salinas, meðal annars bréf sem hann skrifaði sambýlismanni sínum Guðbergi Bergssyni. Salinas var mikilvægur í spænsku menningarlífi á síðari hluta 20. aldar, frumkvöðull á sviði djúpstæðra umbreytinga í spænska útgáfuheiminum, á árunum 1955 til 1990. Hólmfríður Matthíasdóttir útgáfustjóri Forlagsins segir nánar frá í Víðsjá í dag. Einnig verður rætt við Ívar Brynjólfsson um Gunnar Pétursson ljósmyndara en myndir hans eru nú til sýningar í Þjóðminjasafni Íslands. Gunnar var virkur í bylgju áhugaljósmyndara uppúr miðri síðustu öld þegar nýir straumar komu fram og listræn ljósmyndun komst á dagskrá. María Kristjánsdóttir fjallar í dag um leikritið Mæður sem sýnt er í Iðnó um þessar mundir í leikstjórn Álfrúnar Örnólfsdóttur, danskt verk sem frumsýnt var í heimalandinu í fyrra en hefur verið þýtt og staðfært á íslensku. Og bók vikunnar á Rás 1 að þessu sinni er Jakobína: Saga skálds og konu, en hér er á ferðinni ævisaga skáldsins Jakobínu Sigurðardóttur sem skrifuð er af dóttur hennar, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur. Í bókinni er dregin upp mynd af konunni og rithöfundinum Jakobínu og Sigríður Kristín reynir jafnframt að fylla upp í þær mörgu eyður sem eru í vitneskju hennar um lífshlaup móður sinnar, konu sem gætti vel sinna leyndarmála, varði einkalíf sitt og krafðist þess meðal annars að dagbókum sínum og bréfum yrði fargað. Hlustendur heyra í Sigríði í þættinum í dag og hún les brot úr bókinni.