Rumi, Lýðræðisbúllan, Oddný Eir

Published: Dec. 9, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars fjallað um persneska ljóðskáldið Jalaluddin Rumi sem uppi var á 13. öld en Kristinn Árnason skáld hefur þýtt úrval ljóða eftir þetta merka skáld, og birt á bók sem nefnist Söngur reyrsins, með þessu safni býðst lesendum í fyrsta sinn heildstætt úrval af ljóðum Rumi í íslenskum þýðingum. Einnig verður farið í heimsókn í splúnkunýtt sýningarrými í aldargömlu timburhúsi í Þingholtunum. Galleríið hefur fengið nafnið Lýðræðisbúllan og mun opna dyr sínar á laugardaginn kemur, með einkasýningu á verkum Huldu Vilhjálmsdóttur. Hulda segir frá þessum nýjustu verkum sínum í þætti dagsins, málverkum og teikningum sem hún hefur unnið undir áhrifum frá lífinu sjálfu í öllum sínum litrófum, þar sem kettir, konur og kófið koma meðal annars við sögu. Bók vikunnar að þessu sinni er ekki af verri endanum. Það er skáldsagan Sem ég lá fyrir dauðanum, eða As I lay dying, sem kom út árið 1930 og var fimmta skáldsaga bandaríska Nóbelsskáldsins Williams Faulkners. Faulkner var einn virtasti og áhrifamesti rithöfundur Bandaríkjanna á síðustu öld. Stíll hans var og er einstakur, ekki síst í þessari margbrotnu skáldsögu þar sem frásögnin skiptist milli 15 ólíkra radda sem allar segja söguna af kostulegu ferðalagi Bundren-fjölskyldunnar með líkið ættmóðurinnar í farteskinu. Og rithöfundurinn Oddný Eir Ævarsdóttir ávarpar hlustendur Víðssár í dag undir skammdegissól. Umsjón: Eiríkur Guðmundsson