RAX, Vetrarhátíð, ástaraugu, sögur frá Sovét

Published: Feb. 3, 2021, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Ragnar Axelsson ljósmyndara um sýninguna Þar sem heimurinn bráðnar sem opnuð var í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi - á laugardag. Víðsjá tekur líka stöðuna á því sem boðið verður upp á Vetrarhátíð sem hefst á morgun. Árið 1785 barst Marie Anne Fitzherbert bréf frá ástsjúkum aðdáanda sínum í Englandi, Georg IV, prinsinum af Whales. Í bréfinu var að finna pínulítið olíuverk, á stærð við nögl á fingri, og á verkinu var ekkert nema eitt auga. Auga prinsins. Halla Harðardóttr fjallar um ástaraugu í pistli dagsins. Og Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi Víðsjár fjallar í dag um sagnasafnið Sögur frá Sovétríkjunum sem hefur að geyma nítján sögur í íslenskri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur, sögur sem gefa fjölbreytta mynd af sovéskum bókmenntum allt frá byrjun 20. aldar og fram til fyrstu áranna eftir að Sovétríkin liðu undir lok.