Megas, Mislæg gatnamót o.fl.

Published: Dec. 3, 2019, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Megas um skáldsögu hans, Björn og Sveinn, sem kom fyrst út árið 1994 en hefur nú verið endurútgefin með ítarlegum eftirmála eftir Geir Svansson bókmenntafræðing. Bókin byggir meðal annars á þjóðsögum um feðgana og misyndismennina Axlar-Björn og Svein skotta og greinir frá ferðalagi þeirra um næturlíf og undirheima Reykjavíkur, ódæðisverkum og fýsnum þeirra grimmum. Það er bókaforlagið Sæmundur sem gefur út en verkið hlaut vægast sagt blendnar viðtökur á sínum tíma, fyrir 25 árum. Björn Þór Vilhjálmsson bókmenntagagnrýnandi Víðsjár rýnir í ljóðabókina Mislæg gatnamót eftir Þórdísi Gísladóttur. Hlustendur heyra líka tónverkið Stefnumót við sjálfið eftir Pál Ragnar Pálsson og Ásdísi Sif Guðmundsdóttur, en það var eitt þeirra verka sem var frumflutt á nýliðinni tónlistarhátíð Rásar 1 sem fór fram undir lok nóvember í Hörpu undir yfirskriftinni Orðin hljóð. Og bók vikunnar á Rás 1 að þessu sinni er Lífspeki kúa, eða The secret life of Cows, eftir hina bresku Rosamund Young. Höfundurinn er bóndi sem ákvað, eftir að hafa setið með blaðamanni og rætt um bústörfin á lífræna býlinu sem hún tók við af foreldrum sínum, að tími væri komin til að setjast niður og skrásetja sögurnar af kúnum sem hún ræktar. Hlustendur heyra í Ingunni Ásdísardóttur, þýðanda bókarinnar, í þættinum í dag. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson.