Þjóðleikhús í 70 ár, Litla land, Theodóra Thoroddsen

Published: April 21, 2020, 4:05 p.m.

Víðsjá rifjar í dag upp vígslu Þjóðleikhússins og langan aðdraganda að opnun þess, en það var á sumardaginn fyrsta 20. apríl árið 1950 sem vígsla hússins fór fram. Hugmyndin að stofnun þess var hins vegar töluvert eldri og byggingarsaga hússins sem hófst árið 1929 var löng og ströng. Í Víðsjá í dag verður leitað í safn Ríkisútvarpsins og vígslan rifjuð upp, auk þess sem farið verður í fylgd Sveins Einarssonar í heimsókn í húsið á tíu ára afmæli þess árið 1960. Skáldsagan Litla land eftir rithöfundinn og tónlistarmanninn Gaël Faye kom út á frönsku árið 2016, og sló algerlega í gegn. Bókin hefur selst í 800 þúsund eintökum í Frakklandi og verið þýdd á þrjátíu tungumál. Faye hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir verkið, sem gerist í Afríkuríkinu Búrúndí, þar sem höfundurinn fæddist árið 1982, og Rúanda í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar á tímum borgarastríðs og þjóðarmorðs. Rætt verður við þýðanda verksins, Rannveigu Sigurgeirsdóttur, í Víðsjá í dag. Og hlustendur heyra að venju ljóð fyrir þjóð. Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona les í dag ljóðið Mitt var starfið eftir Theodóru Thoroddsen.