Hrafnagaldur Óðins, Medúsa, ferðalög, útilistaverk á Akureyri

Published: Oct. 22, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag rætt við tónlistarmennina Hilmar Örn Hilmarsson og Kjartan Sveinsson en á næstunni verður gefin út upptaka á verkinu Hrafnagaldri Óðins sem frumflutt var á Listahátíð í Reykjavík árið 2002. Að verkinu stóðu hljómsveitin Sigur Rós, Hilmar Örn, Steindór Andersen og fleiri, en það hefur aldrei verið gefið út í heild sinni. Á morgun kemur út fyrsta smáskífan, Dvergmál, þeir Hilmar og Kjartan segja frá Hrafnagaldri Óðins í Víðsjá í dag. Rifjuð verður upp að gefnu tilefni gríska goðsögin um Medúsu, en sagan hefur verið á allra vörum í New York síðustu daga. Nýtt útilistaverk sem hugsað var sem innlegg í Metoo-umræðuna hefur skapað heitar deilur um gæði listaverka, klám, klassík og skapahár svo eitthvað sé nefnt. Medúsa og Metoo í Víðsjá í dag. Einnig verður spurt: Hver hefur smakkað Næturgalatungu? Hvað þá fuglshráka? Hermann Stefánsson rithöfundur veltir fyrir sér ferðalögum og eðli þeirra og rýnir í ferðabókina „Frá Japan og Kína“ eftir Steingrím Matthíasson sem ferðaðist um Austurlönd í blábyrjun síðustu aldar. Og farið verður í göngutúr með Guðrúnu Pálínu Guðmundsdóttur fræðslufulltrúa við Listasafnið á Akureyri, og þrjú útilistaverk í bænum skoðuð.