Hjarta Reykjavíkur, Helgi Þorgils, fataauglýsingar, Egla

Published: Jan. 19, 2021, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Helga Þorgils Friðjónsson myndlistarmann um sýningu sem nú stendur yfir í Galleríi Göngum við Háteigskirkju í Reykjavík. Sýningin ber yfirskriftina 14 stöðvar, sjálfsmynd sem .... en þar sýnir Helgi fjórtán olíumálverk sem hann hefur unnið á síðustu sex árum og endurspegla hinar fjórtán stöðvar frá því að Kristur var dæmdur til dauða, leið hans með krossinn að Golgata, þar til hann var krossfestur, dáinn og grafinn. Í verkunum kallast Helgi á við mörg þekkt verk úr listasögunni, bæði vel þekkt og minna þekkt. Verslunin Hjarta Reykjavíkur við Laugarveg verður heimsótt og þar rætt við Ragnhildi Jóhanns myndlistarkonu um sýningu hennar Meðan blóðið er heitt sem var opnuð um nýliðna helgi. Það er ekki á hverjum degi sem fataauglýsingar fjalla um kynþáttafordóma, kyn, kyngervi og líf handan tvíhyggjunnar, en nýjasta afurð ítalska tískuhússins Gucci gerir einmitt það. Samstarf listræns stjórnanda Gucci, Alessandro Michele og bandaríska leikstjórans GUs Van Sant hefur vakið athygli. Halla Harðardóttir kynnti sér málið og við fáum að heyra betur af því í þætti dagsins. Og kvöldsagan á Rás 1 um þessar mundir er Egils saga, Víðsjá fylgist með lestrinum og skoðar söguna frá ýmsum sjónarhornum, í dag ræðir Torfi Tulinius um ráðgátuna Egil Skallagrímsson, persónueinkenni hans og fleira. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson