Guðbergur, Pessoa, Ragnar Helgi, Málleysingjarnir og München

Published: Nov. 12, 2019, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag er meðal annars rætt við Guðberg Bergsson rithöfund en hann sendi á dögunum frá sér bók sem nefnist Skáldið er eitt skrípatól: Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. Bókin hefur að geyma þýðingar á ljóðum þessa merka portúgalska höfundar sem fæddist í Lissabon árið 1888. Í bókinni er einnig ítarleg ritgerð eftir Guðberg þar sem hann greinir frá uppvexti Pessoa og helstu áhrifavöldum, og skýrir þann bakgrunn sem mótaði skáldið, sem var eitt merkasta ljóðskáld 20. aldar. Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi Víðsjár fjallar í dag um skáldsöguna Málleysingjana, en hér er á ferð fyrsta skáldsaga höfundar sem heitir Pedro Gunnlaugur Garcia, saga sem fjallar um ungt fólk í flóknum og fjandsamlegum heimi. Bók vikunnar hér á Rás eitt að þessu sinni er Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson, bók sem kom út í fyrra og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hlustendur heyra í Ragnari í Víðsjá í dag. Og þeir fá líka sendingu sunnan frá München í Þýskalandi þar sem fræg árás á sköpunarfrelsi listamanna verður rifjuð upp.