Dýpsta sæla, Callas, Guðrúnarkviða, 100% ull

Published: Jan. 26, 2021, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars farið í heimsókn í Kling og Bang gallerí í Marshallhúsinu en þar eiga fjórir listamenn (þau Anne Carson, Halla Birgisdóttir, Margrét Dúadóttir Landmark og Ragnar Kjartansson) verk á sýningu sem kallast Dýpsta sæla og sorgin þunga. Rætt verður við ljóðskáldið Eyrúnu Ósk Jónsdóttur sem sendi fyrir jólin frá sér ljóðsöguna Guðrúnarkviðu. Fyrir tveimur árum var frumsýnd heimildamyndin María by Callas, eftir bandaríska leikstjórann Tom Volf, mynd sem hægt er að nálgast á öllum helstu streymisveitum. Halla Harðardóttir er nýbúin að horfa á myndina og veltir fyrir sér í pistli dagsins hvað það sé við sópransöngkonuna Maríu Callas sem gerir hana svo endalaust heillandi, fyrir utan sönginn auðvitað. Og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar um sýninguna 100% ull í Hönnunarsafni Íslands og veltir fyrir sér tengslum safngripa og menningararfs, þar sem hið óáþreifanlega mætir hinu áþreifanlega í þessari sýningu um hráefnið sem allir þekkja, ullina.