Djass, Eyja, Sláturtíð, Viðvörunarmerki

Published: Oct. 7, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður rætt við Agnar Má Magnússon djasspíanóleikara um nýja plötu hans sem að heitir Mór og þar sem Agnar vinnur með þjóðlegan tónlistararf Íslendinga og setur hann í nýjan búning. Sviðslistaverkið Eyja var fyrsta verkið sem frumsýnt var hjá Leikfélagi Akureyrar á nýju leikári. Þar var leikfélagið að prófa nýjar leiðir til þess að aðlaga sig að veiru-veruleikanum, en í verkinu ferðuðust áhorfendur í litlum hópum um Hrísey í fylgd með börnum sem þar búa. Verkið skapaði sviðslistamaðurinn Steinunn Knútsdóttir, og vann hún það í nánu samstarfi við Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra, en Gréta er fædd og uppalin í Hrísey og því öllum hnútum kunnug. Rætt verður við Steinunni í þætti dagsins. Bók vikunnar á Rás 1 að þessu sinni er Sláturtíð eftir Gunnar Theodór Eggertsson frá 2019. Bókin er skáldsaga þar sem barátta dýraréttindasinna er í brennidepli, en Gunnar Theodór skrifaði á sínum tíma doktorsritgerð um bókmenntir og dýrasiðfræði. Hlustendur heyra í Gunnari í þættinum í dag. Og viðvörunarmerki koma við sögu að gefnu tilefni í Víðsjá í dag. Umsjón Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.