Dimma, Vera mátt góður, net-myndlist, Atburðir við vatn

Published: April 22, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag er meðal annars farið í heimsókn í bókabúð sem opnuð verður í miðborg Reykjavíkur á morgun, sumardaginn fyrsta, á vegum útgáfufyrirtækisins Dimmu. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson útgefandi og verslunarstjóri verður tekinn tali í þætti dagsins. Hermann Stefánsson rithöfundur veltir í dag fyrir sér Þursaflokknum, tónlist og texta, hjartslætti og trommuleik, en þó einkum sérkennilegu gömlu íslensku þjóðlagi, Vera mátt góður, sem nýverið kom í ljós að er af ítölskum uppruna. Sunna Ástþórsdóttir heldur áfram að velta fyrir sér myndlist á netinu og fjallar meðal annars um það hvernig hægt er að ferðast um og skoðað heiminn með hjálp slíkra verka. Bók vikunnar á Rás 1 að þessu sinni er skáldsagan Atburðir við vatn eftir sænska rithöfundinn Kerstin Ekman. Sagan kom út árið 1993 og vakti þá mikla athygli og ári síðar hlaut höfundurinn Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið. Þýðinguna gerði Sverrir Hólmarsson. Hlustendur heyra í Höllu Sverrisdóttur í Víðsjá í dag, og hún les brot úr bókinni. Og hlustendur heyra líka Ljóð fyrir þjóð þegar Birgitta Birgisdóttir leikkona les ljóðið Félagslegt raunsæi eftir Þórdísi Gísladóttur.