Annáll um líf, Smásala, Milo Rau og Ástir

Published: May 12, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Ólaf Pál Jónsson heimspeking sem hefur sent frá sér bók sem nefnist Annáll um líf í annasömum heimi en hún hefur að geyma hugleiðingar um stöðu okkar í samtímanum, auk ljóða og vatnslitamynda. Einnig verður farið í heimsókn í Harbinger sýningarrýmið við Freyjugötu og rætt við myndlistarkonuna Geirþrúði Finnbogadóttur Hjörvar sem þar opnaði sýningu um síðustu helgi sem hún kallar Retail eða Smásölu. María Kristjánsdóttir leikhúsrýnir þáttarins fjallar í dag um svissneska leikhúslistamanninn Milo Rau sem vakið hefur mikla athygli á undanförnum misserum og meðal annars verið kallaður einn mikilvægasti og áhrifamesti leikhúsmaður í Evrópu samtímans. Og bók vikunnar að þessu sinni er skáldsagan Ástir eftir spænska rithöfundinn Javier Marías sem kom fyrst út á Spáni árið 2011 en í íslenskri þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur árið 2012. Bókin var meðal annars valin bók ársins 2011 af gagnrýnendum spænska blaðsins El País. Hlustendur heyra í Sigrúnu í þætti dagsins. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson