Listhugleiðsla, Línur, Svínshöfuð og djass

Published: Feb. 4, 2020, 4:05 p.m.

Í Víðsjá í dag verður meðal annars farið í heimsókn í Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti en þar er nú boðið upp á listhugleiðslu. Fyrir svörum verður Halla Margrét Jóhannesdóttir, safnvörður og yogakennari. Um síðustu helgi var opnuð sýningin "Línur" á Listasafninu á Akureyri en þar sýna átta listamenn frá sex ólíkum löndum og fjórum heimsálfum og "draga línur" með verkum sínum um alla fjórðu hæð safnsins. Gígja Hólmgeirsdóttir heimsótti Listasafnið á Akureyri og náði tali af sýningarstjóranum, Mireyu Samper. Víðsjá veltir líka fyrir sér djass-söng í þætti dagsins og ólíkum röddum sem taka upp á því að syngja djass. Og bók vikunnar hér á Rás 1 að þessu sinni er skáldsagan Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Bókin vakti mikla athygli á síðasta ári, og var meðal annars tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hlustendur heyra í Bergþóru í Víðsjá í dag. Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson